Master of science….

Erlendur Steinar Friðriksson heldur meistaravörn sína föstudaginn 31. janúar 2014 kl. 13:00 í fyrirlestrarsal M102 í aðalbyggingu HA, Miðborg. Verkefni Erlends Steinars, er 90 ECTS verkefni til meistaragráðu í auðlindafræðum og nefnist Veiða og sleppa sem veiðistjórnun á bleikju í Eyjafjarðará.

Verkefni Erlends Steinar var unnið við Háskólann á Akureyri, í samstarfi við Veiðimálastofnun og Veiðifélag Eyjafjarðarár. Fiskiræktarsjóður styrkti verkefnið.
Í útdrætti meistararitgerðarinnar segir Erlendur: „Bleikjustofnum heimsins fer fækkandi og stofnstærðir minnka, á sama tíma eykst til muna sókn í stangveiðar.  Skýrt dæmi er bleikjustofninn í Eyjafjarðará, þar sem að sókn jókst jafnt og þétt til ársins 2001 eða þar til algert hrun varð í stofninum.  Hverjar sem ástæður fækkunar bleikju eru,  má segja að skynsamlegt sé að bregðast við með veiðistjórnun er miðar að sjálfbærni. Markmið veiða og sleppa sem veiðistjórnunaraðferðar er að minnka afföll vegna veiða með því að sleppa veiddum fiski aftur lifandi.  Aðferðinni hefur verið beitt til margra ára með ágætis árangri í ýmsum tegundum sportfiskjar,  m.a. í laxi og urriða.
Litlar heimildir var hinsvegar að finna um að veiða&sleppa hafi verið notað við veiðistjórnun á bleikju og almennt virðist lítt hugað að veiðistjórnun á bleikju. Markmið þessa verkefnis var því að kanna áhrif og möguleika veiða&sleppa til veiðistjórnunar á bleikju í Eyjafjarðará. Rannsóknin var þannig framkvæmd að fiskur var fangaður og merktur, sleppt og fylgst með endurheimtum. Til samanburðar voru nokkrar aðrar ár, stangveiddur lax og urriði, og fiskur fangaður með neti í Eyjafjarðará. Margir stangveiðimenn komu að merkingunum og var þess ekki krafist að þeir beittu sérstökum varúðarráðstöfunum við að veiða og sleppa. Einnig var bleikja fönguð, merkt, geymd í búri í tvo daga og afföll mæld.  Niðurstöður voru þær að lítill munur var á endurheimtum á bleikju í Eyjafjarðará, hvort heldur sem hún var fönguð og merkt á stöng eða í net. Ekki var mælanlegur munur á endurheimtum á bleikju í Eyjafjarðará eftir stærð fiskjar við merkingu, tíma sumars eða veiðimanni. Engin afföll mældust á bleikju fyrstu 48 stundirnar eftir föngun og merkingu.
Hæstu heimturnar í þessari rannsókn voru á laxi í Fnjóská (19%), því næst á bleikju fangaðri í net (12%) í Eyjafjarðará og svo á bleikju fangaðri á stöng í Eyjafjarðará (10%).  Aðrar heimtur voru mun lægri eða á bilinu 3-7%.  Veiða og sleppa kemur því vel til greina sem veiðistjórnunaraðferð á bleikju í Eyjafjarðará..“

Aðalleiðbeinandi var dr. Kristinn P. Magnússon, visterfðafræðingur við Náttúrufræðistofnun Íslands og prófessor í erfðafræði við auðlindadeild HA. Meðleiðbeinandi var Guðmundur Kristján Óskarsson, Cand. scient. oecon. og dósent við Viðskiptafræðideild HA.

Andmælandi og prófdómari verður Ólafur Ingi Sigurgeirsson, M.Sc., lektor við Fiskeldisdeild, Háskólans á Hólum.

Sjá einnig: http://www.unak.is/is/frettir/meistaravorn-i-audlindadeild-1

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Share:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *